Uppskrift af gulli

Önnur amma mín var tékknesk, alin upp á Mala strana, gullgerðargötunni einu. Hún tjáði mér að það væri bölvuð vitleysa að þeim hefði aldrei tekist að búa til gull, hún ætti meira að segja uppskriftina.

saurblaðið úr fimm bókum, öllum á sitthvoru tungumálinu
ljósmynd af sígaunastúlku
kort af Klondike
tíkall
snákshöfuð
Staropramen af krana
kínversk önd með hrísgrjónum
púkinn á öxlinni á þér

Púkanum hefur hingað til tekist að telja mér trú um að uppskriftin sé gagnlaus, en eftir því sem ég eldist grunar mig um að hann sé sá eini sem þyrfti að fara í pottinn, hitt sé allt aukaatriði.

Indiana Frankenstein

Þetta byrjaði allt með ráninu á týndu örkinni. Raiders of the Lost Ark. Fyrsta Afrikuferðin min, við héldum til Túnis og þar voru þeir að taka upp atriðið fræga, þegar arabinn leikur sér að mikilli fimi með sverðið og Indy tekur upp byssuna. Ég fékk að horfa, það voru flestir veikir og nett pirraðir, en einn reyndur ferðalangur sem var þarna líka sagði mér, eftir að hafa hlegið sig máttlausan af því hvað þetta væri jú kómískt allt saman, að innst inni væri hann að velta því fyrir sér hver merkingin væri. Var Indy summa allra heimsveldanna samankominn, alkominn að niðurlægja þriðja heiminn - og alla þá þekkingu, reynslu og glæsileika sem þar var til staðar - með þessu einfalda drápstæki, byssunni?
Harrison hló þegar ég sagði honum þetta skömmu síðar, hann var að drekka nautskerkt te til þess að koma maganum í lag - og þótt hann segði ástæðuna vissulega hreinlega hafa verið pestarslappleika sinn og tökuliðsins þá gekkst hann við því að eitthvað væri til í þessari kenningu kunningja míns, við getum alltaf reynt að aðlagast nýjum siðum þegar við ferðumst, en þegar í harðbakkann slær þá grípum við alltaf til okkar eigin tungumáls - sem fyrir okkur vesturlandabúa þýddi löngum púðrið. En þetta væri sem betur fer að breytast - enda væru þeir að gera bíómynd um veröld sem var. Og sumt úr þeim heimi væri vissulega ástæða til að sakna, en heimurinn breytist og við erum alltaf að eltast við landafræði- og sagnfræðikunnáttu æskunnar, sem er löngu orðin úrelt.
En Harrison sagði mér að hann sæi Indiana fyrst og fremst fyrir sér sem skrásetjara, einhvern sem vill finna það sem skiptir máli í heiminum og bjarga því, bjarga fegurðinni frá illskunni. Enda hafi nasistarnir og kommúnistarnir átt sameiginlega þá ástríðu að eyðileggja mestu listaverkin ef þeir fengu tækifæri til, til þess að verða almennileg manneskja þarf að læra að skilja fegurðina, og hún er flóknari en ætla mætti - afskræmd skrímsli og niðurníddar kommúnistablokkir eigi sína fegurð ekki síður en fegurstu ungmeyjar og glitrandi hallir. Samt væri ekki allt fallegt, þetta væri ekki svo einfalt - og allt færi þetta eftir samhenginu sem við settum hlutina í. Var þetta okkar blokk, okkar skrímsli? Hvaða minningar geymdu þessir gráu gangar, þessi ljóti haus? Ég er enn að reyna að komast að því.

Topp 5

Fimm hlutir sem ég ætla að gera það sem eftir er ævinnar

Vera heima og njóta þess. Ég held að heima sé Granada, án þess að ég sé viss.

Finna stúlku sem ég get verið hamingjusamur með.

Vera hamingjusamur aleinn.

Ala einhvern upp, kenna einhverjum eitthvað, þannig að það skipti raunverulegu máli. Ég er ekki búinn að gera upp við mig hvort ég ætti að eignast börn til þess að uppfylla þetta eða hugsanlega láta það bara duga að kenna annarra manna börnum.

Gera eitthvað nógu merkilegt til þess að vera minnst fyrir það. Þetta líf snýst alltaf á endanum um hvernig minnisvarða maður reysir sjálfum sér - og það er ekkert slæmt við það, svo lengi sem þetta eru vörður sem leiða aðra í rétta átt.

Kynnast öllu fólkinu sem ég tek sem á það til að taka sem sjálfsögðu - mömmu, systkinum mínum, sumum aldagömlum vinum - upp á nýtt. Spyrja þau spurninganna sem ég hef aldrei haft rænu á að spyrja þau.

(lífið er of langt fyrir bara fimm atriði)

5 hlutir sem ég sé eftir

Að hafa ekki spurt pabba minn allra þeirra spurninga sem ég vildi spyrja áður en hann dó. Og að hafa ekki fundist ég hafa gert nógu mikið til þess að gera hann stoltan af mér áður en hann fór.

Fernando, Fatima, Jack í London, Anna, Jose og Bill. Fyrirgefið mér, þið vitið líklega öll fyrir hvað.

Allt fólkið sem ég áttaði mig snemma á að væri frábærir karakterar - og hafði svo ekki fyrir því að kynnast almennilega. Það er staður í helvíti með öllum ímeilunum, símanúmerunum og heimilisföngunum sem maður hafði ekki rænu á að biðja um.

Að hafa hætt í fótbolta, það er eiginlega það eini draumurinn sem ég á sem er alveg örugglega of seint að láta rætast.

Að hafa ekki kjark, þegar allt kemur til alls, til þess að setja stóru eftirsjána hérna. Ég segi ykkur frá henni á endanum, en núna er ég ennþá of lítill í mér.

Fimm augnablik í lífinu

Þegar fyrsti kötturinn minn laumaði sér niður stigann í áttina til mín og ég áttaði mig á hvað mamma hafði gefið mér í afmælisgjöf.

Þegar ég stökk niður af brúnni í Mostar og græddi á því fimm sígarettur, símanúmer hjá króatískri stelpu og 278 dínara. Þá var stúlkan að vísu júgóslavnesk og brúin ekki sprengd upp enn.

Þegar ég var í rútu í Bombay og áttaði mig á því hvað það er brjálæðislega margt fólk í heiminum og fannst það skyndilega ofboðslega fallegt.

Þegar ég var fastur á flugvelli í 3000 kílómetra fjarlægð á meðan jarðarförin hans pabba var. Eftir að ég hafði setið andlitið í höndunum í hálftíma ákvað ég að hafa mína eigin athöfn. Ég keypti rauðvínsflösku, tvö plastglös og upptökutæki og sagði pabba allt sem hann þurfti að heyra.

Augnablikið sem er of dýrmætt fyrir internetið.

Það var fjandi hollt að gera þennan lista, sem varð upphaflega til á þessum kokteilbar í Prag, er ekki rétt að skora á lesendur að herma?

Svörin hans Alfredo

Ég finn hvergi Alfredo, besta kokkinn í Prag. Fyrir rúmum tuttugu árum hefði ég haft meiri áhyggjur, ég hefði hugsað um gúlagið, látið glepjast af paranoju þáverandi samtíma, sem hafði ekki alveg áttað sig á hversu langt perestrojkan var í raun kominn. Þannig að ég hef ekki áhyggjur, ég sakna hans bara. Ég sakna þess að spyrja spurningarinnar sem ég veit að hann mun aldrei svara, hvað seturðu eiginlega í sósuna Alfredo? En þegar ég spurði var hann vanur að gefa mér svar sem kom sósunni ekkert við en var ekki síður merkilegt. Hann sagði mér hvernig bjórinn varð til, hvað Kafka borðaði í kvöldmat á sunnudögum, hvað ég ætti að segja við tékknesku stelpurnar. En aldrei sagði hann mér hvað var í sósunni - og ég verð að viðurkenna að það er lygi að hitt hafi verið jafn merkilegt. Uppskriftin að sósunni hans Alfredo er lykillinn að sjálfri hamingjunni, lífsgátunni - en líklega vissi Alfredo að mig langaði að halda áfram að leita.


Skáldsetar Tékkíu

TG MasarykSvoboda. Ludvík Svoboda, forseti vorsins í Prag - og aldrei eru stúlkurnar fallegri en þegar vorar í Prag. Svoboda, frelsi, gamall hershöfðingi sem stóð undir þessu háfleyga eftirnafni þegar hann bjargaði sjálfum sér, Dubcek og öðrum forsprökkum vorsins eina frá Gúlaginu.
Þetta er fyrsta lexían þegar við Ásgeir fræðum Prag-græningjann Dodda um borgina. Við minnumst vitaskuld líka á Dubcek sjálfan en erum hrifnari af Svoboda, þótt hann hefði vissulega haft ýmislegt á samviskunni. Hrifnastir erum við þó af Masaryk, þessum bláfátæka sveitastrák úr Móravíu sem síðar varð heimspekiprófessor og lenti í útlegð í fyrri heimstyrjöldinni þar sem hann með þrotlausum viðtölum og bréfaskriftum við helstu ráðamenn bandamanna átti stærstan þátt í að gerbreyta landakorti Mið-Evrópu eftir stríð. Og hvernig sannfærði hann þessa ráðamenn - hvaða undirbúningur lá þar að baki?

Aðeins lífið - og skáldsögur. Ég hef nú lesið skáldsögur daglega í sjötíu ár ... Ég lifi í bókmenntum, ég gæti ekki verið án þeirra: þær innihalda svo mikla reynslu, þvílíka þekkingu á mannsandanum.


Masaryk lifði jafnt í heimi sagna og raunheimum - og sú reynsla gerði honum unnt að gjörbreyta þeim raunveruleika sem hann lifði í. Hann var skáld á forsetastól eins og Havel seinna, þótt hann hafi látið öðum eftir að skrifa. Og svo förum við að segja Dodda frá skáldunum.

Alveg glymjandi einsemd

Prag er gráleit þessa dagana, en það gerir veðrið, ekki svefninn langi sem hún var ekki enn vöknuð af þegar ég kom hingað fyrst. Þetta var árið 1984, það var verið að taka upp Amadeus hérna og Milos Forman hafði snúið aftur til borgarinnar, hann og Mozart, tveir týndir synir - og ég sem vissi mest lítið þá, vissi ekki um þessa heimsborg sem hafði leynst bak við járntjaldið allan þennan tíma. Prag er þó dálítið sérstök að því leyti að hún er alltaf þessi falda heimsborg, hún er aldrei grand, hún er intróvertaða ljóðskáldið í hópi heimsborganna - hinar eru allar að semja epík eða skáldsögur á meðan Prag segir gamansögur á daginn, syngur saknaðarljóð á næturna og leikur sér að því að blekkja kölska sjálfan þess á milli. Það eru allar líkur á því að Sæmundur fróði hafi haft tékkneskt blóð í æðum, hér snúast flest ævintýrin um það hvernig þeir snéru á skrattann - enda hefur skrattinn oft heimsótt borgina, í líki Habsborgara, nasista og sovéskra skriðdreka. En þá fór Svejk náttúrulega bara á barinn - og drakk stórveldin undir borðið á endanum með dykkri hjálp Bohumils.

Shakespeare og kisi

Við förum líklega ekki til Parísar í þessari ferð. Þannig að best að rifja upp gömul ævitýri í staðinn. Stúlkan í Eiffel-turninum sem hallaði sér fram af handriðinu, leit í augun á mér og kenndi mér svo allt sem ég þurfti að vita um Frakkland. Kötturinn á Shakespeare & co. sem vakti mig á hverjum morgni, sníkti mjólk og kúrði svo hjá mér á meðan við lásum í tvo klukkutíma áður en bókabúðin opnaði og ég var til skiptis fenginn í vinnu eða sendur út að kynnast borginni. Ég gekk til Monu Lisu og hún náði ekki sambandi við mig en ég hélt áfram að ganga og Louvre-safnið sýndi mér allar sýnar gersemar, ég gekk þar um í marga daga og sá varla nokkurn tímann sömu verkin tvisvar. Ég hugsaði um öll þessi stórkostlegu listaverk sem týnast í innstu skúmaskotum safna, öllum stórkostlegu bókunum sem safna ryki á lagernum sem viðskiptavinirnir aldrei sjá þangað til þeim er að lokum fargað, öllum stórkostlegu lífunum sem engin man eftir lengur. Stundum er þessi veröld svo alltof, alltof stór. Stundum bölvar maður henni fyrir einmitt það, hversu ómögulegt er að ná utan um hana, hversu ómögulegt er að verða eitthvað meira en eitt ræfils smálbóm, hversu miklu sem maður afrekar.


Án þín

Það er notalegt að labba um fallegan garð, og af slíku eiga Bretar nóg. Þó vantar oftast eitthvað. Til þess að njóta þessara garða almennilega þarf eitt af þessu; fallega stúlku til þess að halda í höndina á, helling af krökkum til þess að spila fótbolta með eða fjölskyldu eða vinahóp með körfu fulla af nesti og einhvern fórnfúsan einstakling sem býðst til þess að grilla. En stúlkan skiptir samt alltaf mestu máli, þarna sem og annars staðar. Kæra Annabella, hvar ertu núna og af hverju heldurðu ekki lengur í höndina á mér?


Svipmynd af Ilonu

Hún er jafn sterk og hún er tágrönn, hún gleymir oft að borða því draumarnir kalla svo hátt. Hún er eilífðarstúdentinn sem er að fara að klára eilífðina, doktorsprófið. Og hvar liggur næsti draumur? Kýpur eða Tékkland, Oxford eða Kanada? Kýpverski stjörnufræðingurinn mun dreyma með henni, enda þurfum við öll góðan slurk af stjörnum með draumunum. Ásgeir þekkir flesta hennar gömlu kærasta, hann þykist sjá að það sem vantaði þá vantar ekki lengur.
Hún er líka allra þjóða kvikindi, kaldastríðsbarn sem nýtti sér það þegar múrinn féll og ákvað að sjá heiminn. Og nú togar hann í hana úr öllum áttum. Hún var tuttugu ára þegar flauelsbyltingin var, var einhver staður og tími betri til þess að vera tuttugu ára en í Prag 1989?


Mín Oxford

Hangs á kaffistofum, þar var veröldin svo afskaplega nálægt. Hún var enn nær á vorin þegar við hittum skólasystur okkar í sumarkjólum á göngunum, ilmandi eins og sólin sjálf. Og þetta einstaka tækifæri til þess að sökkva sér í bækur. Misgóðar vissulega, en þegar bókin var góð og stúlkan á næsta borði var falleg og þegar hún tók þátt í kaffistofuspjallinu í frímínótunum, einmitt þá var lífið eins og best var á kosið. Jafnvel betra en þennan stutta tíma sem við vorum hamingjusöm saman, því þá var ennþá engu að tapa, við vorum ung og allt var ennþá mögulegt þótt okkur fynndist eins og ekkert hefði ennþá gerst - veröldin var öll föst í framtíðinni ennþá. Þetta var mín Oxford, þótt hún væri ekki hér þá er lyktin eins. Lyktin af bókum, hári stúlkna sem hafa sofnað með bækur í fanginu og óteljandi draumum sem ekki hafa brostið enn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband