Faðmlag Ameríku

Ég hitti hana á Rauða ljóninu, sjarmerandi bar í Soho í miðbæ Lundúna. Villt krullað hár læddist undan ullarhúfu, hún var í Converse-skóm og hún var Bandarísk. En hún sagði mér að þar hefði hún aldrei átt heima, jafnvel áður en Bush steypti þeim í ógæfu þess sem alls á og ekkert virðir hafði henni aldrei fundist hún eiga heima þar, hún þurfti staði fulla af sögu. Þar sem sérhver hanabjálki væri fullur af biskupum, dýrlingum og morðingjum, för eftir hengiólar væru í hverjum krók og kima, þar sem úlfarnir væru raunverulegir en ekki bara varhugaverðir sport-strákar að reyna við klappstýrur.
En svo hafði hún komið til Evrópu, London, hún var hrædd við ný tungumál - eitt skref í einu, fyrst ný menning, svo nýtt tungumál. Og eftir ár hér hafði hún farið að skilja betur og betur allar sögurnar að heiman. Allar borgirnar og fylkin sem iðullega hétu indjánanöfnum sem enginn skilur. Ameríku Bruce Springsteen, Köngulóarmannsins og Humphrey Bogarts, landið sem gat af sér Hemingway og Steinbeck og fóstraði Evrópubúa eins og Billy Wilder. Landið sem umlykur okkur alls staðar og við tökum bara eftir því þegar faðmurinn kreystir of fast. Ameríka kremur okkur en heimurinn faðmar okkur - en Ameríka er heimurinn, alþjóðavæðingin maður! Við erum hætt að taka eftir því þegar Ameríka faðmar okkur, nema þegar við sjáum blóðsletturnar eftir faðmlagið, blóðslettur frá turnum sem hrundu þannig að heimsbyggðin nötraði. Og New York maður, New York! Þar er sálin og þar er líka sárið, sárið sem þarf að láta gróa svo það hætti að blæða svona mikið þegar hún Ameríka faðmar okkur að sér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband