Til gamla heimsins

En sumsé, jafn frábærlega gefandi og yndislegt það getur verið að vinna með þessum frábæru, drullugu og lífsglöðu gvatemölsku krökkum þá er það nú líka fjandi erfitt, þegar eymdin snýr á þig þá tekur hún ávallt örlítin bút af sálinni í kaupbæti, þetta er eilífðarpóker - en á meðan við leggjum aðeins sálina undir þá þurfa þau að leggja lífið undir líka. En aftur sumsé, ég þurfti í burt. Ég þurfti til gömlu álfunnar, ég þurfti að fara áður en ég færi sjálfur að leggja lífið undir. Innst inni þá bærði lífhræddi lúxusglaði Vesturlandabúinn á sér. Ég var samt ekki alveg tilbúinn til þess að láta það eftir honum að leggjast í daglaunavinnu heima í Andalúsíu, ég er of rótlaus til þess að bremsa svona snöggt - og því passaði það einhvern veginn fullkomlega þegar ég fékk tölvupóst frá Ásgeiri. Við kynntumst fyrst þegar hann var í tvo daga í Granada yfir jól, þetta voru aðeins fáeinir bjórar en við skiptumst á netföngum og það varð til þess að nú erum við lagðir af stað í ferðalag um Evrópu þvera og endilanga. Ég fæ að fljóta með, þannig að eftir flug frá Gvatemala til Bandaríkjanna þá finn ég mér flug til Íslands, til þess eins að taka þar flug með Ásgeiri og Dodda til London. Ég lofa að stoppa næst.

Lífið fyrir blogg

Lífið fyrir þessa ferð var í Guatemala. Götubörn sem sultu sáru hungri, þökk sé minni eigin þjóð sem hefur alla ógæfu Suður- og Mið-Ameríku á samviskunni - og þótt það sé langt um liðið og þeirra ógæfa sé orðin okkar líka, spánverjar orðnir að indjánum og indjánar að spánverjum - og allt eru þetta nú orðnir gvatemalar, brasilíumenn og mexíkanar, perúbúar, argentínumenn og paragvæjar. En það minnsta sem mér fannst ég geta gefið til baka var smáaðstoð sem og vanmáttug tilraun til þess að upplifa og skilja þeirra veröld. Þannig að ég vann með Oxfam í eitt ár, eða fyrir Oxfam og með börnunum - og það er önnur og lengri saga sem ég kemst vonandi í að skrásetja almennilega síðar, en núna er rétt að einbeita sér að núinu - ná utan um þetta ferðalag. En ferðalög framkalla minningar, öll ferðalög enda í ranghölum fortíðarinnar - þangað til að þú kemst loksins að því að veröld þín er löngu horfin og þú þarft að byggja nýja frá grunni.

Vísir að byrjun

Ég tala íslensku, oft og mörgum sinnum. Held ágætis símasambandi við nokkra vini mína á Íslandi og er líka duglegur að plata þá til þess að senda mér íslenskar bækur. En ég hef verið alltof latur við að skrifa hana. Ég vona að þetta byrji nógu snemma, þetta er í raun oft lausleg þýðing á ferðadagbókinni sem ég held á minni ylhýru spænsku - íslenskunin er smá ástarsaga, óður til áranna á Gamla garði undir lok síðustu aldar, þegar ég hikstaði á öllum þessum þonnum og eðum og þessum furðulega framburði. En nú hef ég samið við Ásgeir um að kíkja reglulega í tölvuna hans á meðan við flökkum og lyklaborðið hans er fullt af þessum torkennilegu íslensku táknum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband