Einu sinni í Dyflinni ...

Ég man þegar ég böskaði á götum Dyflinnar þá söng ég alltaf á spænsku. Angurvær og bitur lög um fyrstu kærustuna mína sem hætti með mér þegar hún komst að því að ég elskaði ekki Franco, um allar stúlkurnar sem sigldu fram hjá mér í borgum heimsins, hver annarri fegurri - og í hvert skipti bölvaði ég jafn innilega að héðan þyrfti ég að fara fljótlega og aldrei yrði hún mín. Ég er skip að nóttu, ávallt án farþega, sigli eftir vindum sem ég einn finn fyrir. Stöku sinnum hoppar vissulega einhver um borð, en það er ávallt tímabundið, kveðjan er ávallt handan við hornið.

Mér fannst, eins og Þorgeir Þorgeirsson hér um árið, að nú væri ég kominn heim. Og þegar maður er kominn heim syngur maður á móðurmálinu. Ekki hitti ég þó mína Molly þarna, Molly Malone ýtir sínum hjólbörum fyrir aðra en mig.

Er Tíbet í Chinatown?

Ljúffeng önd, made in Chinatown. Uppreisnargjarnir Tíbetbúar, barðir í
hakkabuff, næst á matseðlinum? Þetta var vissulega ósmekklegt, en samt,
hvað ætli öllum þessum evrópsku kínverjum þyki um tilburði landa sinna?
Og væri ósanngjarnt að spyrja? Já, í raun væri það ósanngjarnt - þetta
eru ekki þeirra glæpir en vitaskuld bærast með þeim flóknari
tilfinningar en hjá okkur sem sjáum bara ókunnugt fólk í öðrum löndum
berja hvort annað. En þótt það sé ósanngjarnt er það forvitnilegt. Mig
langar að vita meira, ef það þýðir að ég þurfi að vera ósanngjarn við
og við verður líklega bara að hafa það.


mbl.is Paulson hvetur til friðsamlegra lausna í Tíbet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsókn til Dali - í London

Federico frændi og Dali, það er saga sem ég þarf að rifja upp fyrir ykkur við tækifæri. En samt saga sem ég þekki sjálfsagt lítið betur en þið, ég var ekki á staðnum. Þeir voru vinir og óvinir, þegar allt kemur til alls þá er merkilegt hversu lítill listamannaheimurinn getur orðið, jafnvel í fjölmennu ríki eins og Spáni. En ég hugsa um Federico þegar ég skoða verkin hans Dali, hugsa með mér; voru það máski forfeður okkar sem voru byltingarmennirnir, erum við svo smáborgararnir?


Kókoshnetur

Kókoshneta er svört að utan en hvít að innan. Þannig þótti einhverjum tilvalið að nota orðið einnig yfir blökkumenn sem væru aðeins svartir á hörund ef hugsunarhátturinn væri hugsunarháttur hins hvíta. Og þótt það sé öðruvísi orðað velta nú margir fyrir sér þessari spurningu þegar horft er á fréttatíma: Er Barack Obama kókoshneta? Frank Rijkaard var kominn á táningsaldur þegar hann komst að því að hann væri svartur. Það er líklega jákvætt - fram að því hafði það einfaldlega ekki skipt máli. Hvernig ætli það sé að vera alltaf eitthvað allt annað en manni finnst maður vera? Vera eilíflega utangarðs? Eða öllu heldur; að komast inn fyrir garðhliðið en vera þá utangarðs hjá þínu fólki, utangarðs hjá utangarðsfólkinu. Þetta er eilífðarklípa hins undirokaða, ef hann nær að bæta stöðu sína, þýðir það að hann hafi sigrast á erfiðleikunum eða þýðir það að hann hafi svikið upprunann, gengið til liðs við hina?
Og að lokum; hvað þýðir það - hverjir eru þessar kókoshnetur? Tækifærissinnar eða einfaldlega þeir hæfustu? Hvar eru skilin, hverju þarf að fórna og hverju er réttlætanlegt að fórna? En slíkt er vitaskuld ekki aðeins spurning fyrir hina undirokuðu heldur fyrir okkur öll, bæði hvert við viljum komast og hvaða leið við veljum að fara þangað.
Og kókoshnetan á alveg að einhverju leyti við Íslendinga og Spánverja. Spánverja sem teljast ótvírætt til Vestur-Evrópu með blóm í haga, jafn stutt og það er í raun síðan ógnaröld fasistanna og Francos lauk. Íslands sem er flækt í leifar af sjálfsmynd fátækasta lands Evrópu og lands sem nú er eitt það ríkasta, hvað sem gengissveiflum líður.

Hetjudauði þjóðarmorða

Við erum ansi vandlát á þjóðarmorð. Aðeins einstaka fá sitt pláss í heimsvitundinni. Við munum slátrun indjána í Norður-Ameríku en virðumst óðum að gleyma Suður-Ameríku, við minnumst Afríku á meðan fæst munum við Ástralíu. Svo ekki sé minnst á öll þau þjóðarmorð sem ég er búinn að gleyma eða hef aldrei heyrt af. Ég er heldur ekki alveg viss hvað þarf til. Varla að þurrka út heila þjóð, það hefur blessunarlega oftast mistekist. Eitthvað ákveðið hlutfall, nógu margar milljónir? Eða þarf þetta að vera nógu kaldrifjað, nógu úthugsað og nógu skipulagt? Um þetta hugsa ég þegar ég geng um götur Lundúna og skoða allar þessar styttur um sek fórnarlömb þjóðarmorða átjándu og nítjándu aldar, styttur sem aðalskúrkarnir í Buckingham hafa sjálfsagt látið reisa.

Kubrick, minning

Ég hitti Kubrick rétt áður en hann dó. Hann var á göngu í Lundúnum, ég sagðist vera blaðamaður og bað um viðtal. Hann sagðist ekki vilja veita viðtal en hann var til í spjall. Við röbbuðum langt inní nóttina um 2001 sem var að fara að koma, árið sem geimferðin varð að heljarför til Afganistan og Írak, árið sem öllu breytti einu sinni enn. Ekkert af þessu vissum við þó þá, Stanley var nokkuð bjartsýnn, hann sagðist geyma svartsýnina fyrir bíómyndirnar. Hann hlakkaði til framtíðarinnar sem hann aldrei fékk að sjá, aðeins yrkja bíómyndir um. Hann var farinn að láta sig dreyma um að gera AI og trúði mér fyrir því að það væri búið að finna upp gervigreind fyrir langa löngu, enda þyrfti engar vélar til - bara vel þjálfaða pólitíkusa.


Njósnir í almenningsfarartækjum

Önnur stúlka, núna í tjúbinu. Þessi er bresk, hún vekur athygli mína þegar hún tekur upp skrifblokk og af skömmum mínum lít ég yfir öxlina á henni. Hún skrifar um strákinn sem hún er að reyna að gleyma, hann fær pláss við hliðina á innkaupalista og minnispunkti um að mæta í atvinnuviðtal klukkan tíu á morgun.


Faðmlag Ameríku

Ég hitti hana á Rauða ljóninu, sjarmerandi bar í Soho í miðbæ Lundúna. Villt krullað hár læddist undan ullarhúfu, hún var í Converse-skóm og hún var Bandarísk. En hún sagði mér að þar hefði hún aldrei átt heima, jafnvel áður en Bush steypti þeim í ógæfu þess sem alls á og ekkert virðir hafði henni aldrei fundist hún eiga heima þar, hún þurfti staði fulla af sögu. Þar sem sérhver hanabjálki væri fullur af biskupum, dýrlingum og morðingjum, för eftir hengiólar væru í hverjum krók og kima, þar sem úlfarnir væru raunverulegir en ekki bara varhugaverðir sport-strákar að reyna við klappstýrur.
En svo hafði hún komið til Evrópu, London, hún var hrædd við ný tungumál - eitt skref í einu, fyrst ný menning, svo nýtt tungumál. Og eftir ár hér hafði hún farið að skilja betur og betur allar sögurnar að heiman. Allar borgirnar og fylkin sem iðullega hétu indjánanöfnum sem enginn skilur. Ameríku Bruce Springsteen, Köngulóarmannsins og Humphrey Bogarts, landið sem gat af sér Hemingway og Steinbeck og fóstraði Evrópubúa eins og Billy Wilder. Landið sem umlykur okkur alls staðar og við tökum bara eftir því þegar faðmurinn kreystir of fast. Ameríka kremur okkur en heimurinn faðmar okkur - en Ameríka er heimurinn, alþjóðavæðingin maður! Við erum hætt að taka eftir því þegar Ameríka faðmar okkur, nema þegar við sjáum blóðsletturnar eftir faðmlagið, blóðslettur frá turnum sem hrundu þannig að heimsbyggðin nötraði. Og New York maður, New York! Þar er sálin og þar er líka sárið, sárið sem þarf að láta gróa svo það hætti að blæða svona mikið þegar hún Ameríka faðmar okkur að sér.

Leifsstöð og skuldir

Leifsstöð er óþekkjanleg. Hitti Ásgeir og Dodda kunningja hans, þessar kunnuglegu Íslendindingatýpur sem dreifa sér á Næsta bar, Mokka og Ölstofuna en eiga þó hvergi almennilega heima nema á flakki. Kæruleysislegur jakki og ljósbrún taska fyrir skáldsögur, minnisbækur, fartölvur og annan óþarfa sem við getum ekki lifað án. Þeir bera sig mannalega en ég finn að fjárhagsáhyggjurnar eru ennþá í maganum á þeim, þessar áhyggjur sem eru í maganum á flestum Íslendingum sem eru ekki að vinna í einhverjum bankanum. Ég þarf að hjálpa þeim að gleyma þeim sem fyrst. Áður en ég fer sjálfur heim og borga skuldir, sá dagur kemur alltaf að lokum - og skuldirnar eru ekki alltaf í peningum.

Hannibal um Hannibal ...

Vonandi lesa einhverjir af mínum gömlu vinum þetta - en það þarf vitaskuld ekki að vera. Kannski er rétt að ég kynni mig? Ég heiti Hannibal Garcia Lorca, náskyldur ljóðskáldinu Federico sem þið hafið máski heyrt um. Ég er fæddur í Granada og það er ennþá heimilið, en mér finnst ég löngu búinn með Andalúsíu - að minnsta kosti í bili. Núna er það heimurinn. Ég er rótlaus andskoti, líklega enn rótlausari en ferðafélagi minn þótt hann fullyrði að hann muni slá mér við þótt síðar verði. Ég er óttalegur svampur, ég sýg í mig tungumál, menningu og sögu - það er mitt bensín, ég lifi líklega mest í gegnum aðra - spegla sjálfa mig í framandleikanum, eilíf leit að mínum eigin stað í veröldinni. Kannski finn ég þann stað aldrei, en kannski hef ég bara eytt síðustu fimmtán árum í að stækka hann. Fimmtán ár án þess að eiga nokkur staðar heima, nema í örskotsstund - að byggja upp einhvern vísi að heimili aðeins til þess að fara aftur. En hér, loksins, byrjum við. Nú er næsta ferð, þessi ferð, að hefjast. Eftir raunverulega byrjun vitaskuld, internetið er iðullega langt á eftir minnisbókunum á  flakki um misnettengda Evrópu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband